Þessi (þar til núna prívat-) síða um sumarfríið okkar er fyrir þeim sem þekkja okkur hjónakornin ákaflega lýsandi dæmi um það hversu ótrúlega skipulögð við erum og skýrir væntanlega fyrir öðrum hvers vegna sumir vísa til okkar sem Excel-parsins. Við höldum því ótrauð fram að gott skipulag einfaldi lífið fremur en hitt og kjósum einmitt einfalt líf framar öðru (þó með nægu rými fyrir dálitla sérvisku).
Hér til hægri eru tenglar á áfangastaðina sem við ætlum að heimsækja og var raðað inn fyrir þó nokkru, þegar við byrjuðum að hugsa til norðurfarar og vildum hafa fyrir augunum hvað væri helst í boði í Hálöndunum og eyjunum norðan og vestan við Skotlands. Þetta er því ekki hefðbundin bloggsíða og ekki meiningin að stinga neinu nýju hér inn en þau sem hafa fetískan áhuga á að vita hvar við erum hvaða dag (til dæmis mamma mín) geta þá séð það hér og flett í gegnum tenglana og séð hvernig Skotar fara að því að laða ferðamenn að þessu landssvæði sem er um margt líkt okkar ástkæru fósturmold, þéttbýlla þó til muna.
Áhugafólk um olíuhreinsistöðvar, álverksmiðjur og aðra stóriðju í hverjum firði Fróns gæti vísast eitthvað af þeim skosku lært um hvaða efnislega hag má hafa af náttúrufegurð og miðlun á sögu og menningu í fámennari byggðarlögum. Meira um það og allt annað síðar, því nú höldum við í langþráð fríið.
Saturday, 9 June 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment